Laga þessa síðu

Beint lýðræði: Við viljum að þú ráðir

Píratar vilja að þú getir tekið þátt í ákvarðanatöku í málum sem þig varða. Píratar vilja ekki að þú þurfir að framselja atkvæði þitt til fjögurra ára í einu. Í þessum tilgangi hafa Píratar búið til kosningakerfi sem miðar að því að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð en jafnframt nýta tæknina upp að því marki sem mögulegt er. Haltu atkvæðinu þínu og taktu þátt í alvöru lýðræðissamfélagi.

Gagnsæi: Tökum upplýstar ákvarðanir

Píratar vilja að almenningur hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hann þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir og veitt stjórnsýslunni það aðhald sem hún þarf. Án gagnsæis er ekki alvöru lýðræði, ekki hægt að taka ákvarðanir um opinber fjármál, ekki hægt að koma í veg fyrir spillingu og ekki hægt að krefjast ábyrgðar.

Endurskoðun höfundarréttar

Þegar það kemur að því að setja hömlur á internetið, njósna um borgara og takmarka aðgengi þeirra að upplýsingum, þá er það undantekningalítið í nafni höfundarréttar. Höfundarréttur, eða í það minnsta hefðbundinn skilningur á honum, er orðinn að verulegri ógn við frjáls samskipti, burtséð frá því hvort fólk sé að gera eitthvað ólöglegt eða löglegt. Píratar eru ekki á móti höfundarrétti, en þykir ljóst að uppfæra þarf hugmyndir um hann ef vel á að fara.

Mannúðleg vímuefnastefna

Píratar vilja taka upp hina svokölluðu Portúgölsku leið sem leitast við að hjálpa þeim sem eiga við vímuefnavanda að stríða á mánnúðlegan hátt. Í stað þess að beina fíklum inn í dómskerfið viljum við taka þá inn í heilbrigðiskerfið, hjálpa þeim að takast á við fíknina og að verða aftur heilbrigðir þátttakendur í samfélaginu.

Menntamál

Píratar gera sér grein fyrir því að það þarf að uppfæra menntakerfið í heild sinni. Samfélagið og menntakerfið þurfa að vera samstíga frá leikskóla til háskóla. Tilgangur skólakerfisins er að kenna fólki á það hvernig samfélagið virkar og hvernig á að búa til nýja þekkingu. Allt of margir útskrifast úr háskólanámi án þess að hafa tækifæri á að finna starf á sínu sviði. Þetta vilja Píratar laga með því að gera nám á öllum skólastigum fjölbreytt, sveiganlegt, netvætt og beintengt við samfélagið. Píratar vilja að kynfræðsla skuli lögbundin sem sérstök námsgrein í grunnskóla og að áhersla verði lögð á gagnkvæma virðingu, samskipti og upplýst samþykki.

Jafnréttismál

Píratar líta á jafnrétti sem spurningu um grundvallarréttindi sem tryggja ber bæði lagalega og samfélagslega. Ekki er nóg að einstaklingar njóti lagalegrar verndar gegn einu formi misréttis þegar annað þrífst óáreitt í samfélaginu – og misrétti verður aldrei upprætt að fullu með lagasetningu einni saman heldur þarf að vinna í hugarfari fólks með öllum tiltækum leiðum. Allar staðalmyndir og ranghugmyndir um einstaka samfélagshópa sem hamla gegn því að fólk geti notið sín á sínum eigin forsendum eru Pírötum á móti skapi. Píratar vilja ekki bara umburðarlyndi heldur að allir séu samþykktir og metnir að verðleikum.

Stjórnarskráin

Píratar vilja að ný stjórnarskrá verði samþykkt þar sem tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar. Það þýðir að samþykkja skuli frumvarp til stjórnskipunarlaga sem er í samræmi við frumvarp Stjórnlagaráðs í öllum efnisatriðum.

Evrópusambandið

Píratar standa fyrir gagnsæi og beint lýðræði, því teljum við að allt viðræðuferlið eigi að vera opið og allar upplýsingar eiga að vera uppi á borðum. Almenningur á síðan að fá að taka vel upplýsta ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er.

Skuldamál heimilanna

Píratar vilja ganga skal úr skugga um lögmæti verðtryggðra lána og Píratar munu styðja lántakendur í að sækja rétt sinn. Reynist lán ólögmæt skal gæta þess að dómum verði framfylgt. Lyklalög skulu heimila lántakendum, sem það kjósa, að gera upp húsnæðislán sín með því að afsala sér fasteigninni til bankans. Festa skal stimpilgjöld og lántökukostnað í fastri og eðlilegri upphæð svo lánhafar geti fært sig á milli lánastofnanna og til verði eðlilegur neytendamarkaður. Uppgreiðslugjald skal bannað á nýjum lánasamningum. Fólk almennt skal ekki gert gjaldþrota vegna bankahruns sem lánveitandi þeirra orsakaði.

Atvinnu- og efnahagsmál

Stór fyrirtæki hafa fengið allt of mikla athygli á undanförnum árum, 99% fyrirtækja á Íslandi eru lítil eða meðalstór. Píratar vilja betrumbæta atvinnuumhverfi smáiðnaðar með einfaldara rekstrarumhverfi. Píratar sjá líka tækifærin sem felast í internethagkerfinu. Með því að hanna kjörlendi fyrir internetiðnað þá stækkar markaður núverandi og verðandi fyrirtækja á Íslandi gríðarlega og atvinnutækifærum fjölgar.

Sjávarútvegsmál

Píratar leggja áherslu á að í stjórnarskrá verði fest ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í náttúru Íslands. Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar. Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga sem kjósa að stunda þær. Allur afli skal fara á markað.

Velferðarmál

Píratar vilja lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Einfalda þarf framfærslukerfið og bjóða þarf bótaþegum, hvort sem það eru öryrkjar, fatlaðir eða atvinnulausir upp á fjölbreytta atvinnu, frístunda og menntunarmöguleika. Bæta skal aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standa auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði.